Fréttir‎ > ‎

Ísland 4.4.28 - 9.7.61 Noregur

posted Sep 11, 2011, 1:02 PM by Friðgeir Ásgeirsson
Í gær, laugardag, fór fram vináttulandsleikur Íslands og Noregs í andspyrnu (áströlskum fótbolta) á Tungubakkavelli í Mosfellsbæ.

Um var að ræða fyrsta landsleikinn í andspyrnu á íslenskri grundu en landslið Íslands hefur áður tekið þátt  í tveimur alþjóðlegum mótum erlendis og náð þar ágætum árangri og er sem stendur í 11. sæti Evrópulistans í andspyrnu.

Leikurinn í gær var spennandi lengi vel enda voru bæði liðin vel stemmd og ákveðin að leggja sig fram. Ísland byrjaði betur og skoraði fyrsta markið í leiknum en norðmenn voru fljótir að svara með tveimur mörkum.  Í hálfleik munaði aðeins þremur mörkum, en þegar upp var staðið unnu norðmenn sannfærandi sigur með 61 stigi gegn 28 stigum íslenska liðsins.

Norska liðið lék vel, og skóp leikreynsla þeirra og hratt, stutt samspil sigur þeirra í gær. 

Flestir norsku leikmannanna hafa spilað íþróttina talsvert lengur en liðsmenn íslenska liðsins og er rúmur helmingur liðsins brottfluttir ástralir sem koma með góðan grunn frá Ástralíu þar sem ungmenni alast upp við íþróttina frá blautu barnsbeini. Íslenska liðið er mun yngra og með mun minni leikreynslu, enda hefur andspyrna aðeins verið leikin hér á landi í rúm tvö ár.

Eyjólfur Bjarni Sigurjónsson þjálfari íslenska landsliðsins var sáttur við leikinn en ekki úrslitin;  "Þetta var frábær skemmtun þar sem við náðum oft á tíðum að sýna ágætisleik og veita norska liðinu harða keppni.  Það kom þó í ljós greinilegur styrkleikamunur í síðari hálfleik þegar þeir sigu fram úr okkur og kláruðu leikinn örugglega.  Við söknuðum auðvitað okkar besta manns, Páls Tómasar Finnssonar, sem er meiddur, en hann var m.a. valinn besi leikmaður Evrópu á Evrópumeistaramótinu í fyrra.  Norðmenn áttu hins vegar sigurinn fyllilega skilið og léku á köflum stórgóðan bolta.  Nú er bara að æfa meira og heimsækja þá og launa greiðann."

Maður leiksins var valinn Rene Jensen, en þeir Magnús Þórarinsson og Viðar Kristinsson komu þar á eftir.  Kurt Jansen var markahæstur í norska liðinu með 20 stig, en hjá íslenska liðinu skoruðu þeir Friðgeir Torfi Ásgeirsson fyrirliði liðsins, Hlynur Höskuldsson, Nicolas Lauzet og Viðar Valimarsson 6 stig hver.
Comments