Fréttir‎ > ‎

Ísland - Noregur

posted Sep 8, 2011, 5:46 AM by Friðgeir Ásgeirsson   [ updated Sep 8, 2011, 5:49 AM ]
Ísland og Noregur leika nú um helgina vináttulandsleik í andspyrnu (áströlskum fótbolta) hér á landi.

Um er að ræða fyrsta landsleikinn í andspyrnu á íslenskri grundu og markar þessi áfangi tímamót í ástundun andspyrnu á Íslandi. Landslið Íslands hefur áður tekið þátt í tveimur mótum erlendis og öðlast við það dýrmæta reynslu sem vonandi nýtist vel gegn norska liðinu, en flestir norsku leikmannanna hafa spilað íþróttina talsvert lengur en liðsmenn íslenska liðsins.

Friðgeir Torfi Ásgeirsson fyrirliði íslenska landsliðsins er bjartsýnn fyrir leikinn; "Við ætlum klárlega að berjast til sigurs í þessum leik og vonumst eftir góðum stuðningi áhorfenda. Við vitum lítið um norska liðið, nema að með því leika þónokkrir brottfluttir ástralir sem kunna vel að spila íþróttina, en við treystum á eldmóðinn og ungmennafélagsandann til að leiða okkur til sigurs."

Ísland leikur án síns besta leikmanns, Páls Tómasar Finnssonar, sem kom meiddur heim frá Ástralíu þar sem hann keppti á heimsmeistaramótinu í andspyrnu fyrir hönd Frakklands þar sem hann hefur verið búsettur. Páll Tómas hlaut mikið lof á Evrópumeistaramótinu á síðasta ári þar sem hann var valinn besti leikmaður Evrópu. Íslenska landsliðið státar þó af mörgum góðum og efnilegum leikmönnum sem eiga að geta veitt norska liðinu harða keppni. Því má búast við hörku leik um helgina.

Landsleikurinn fer fram laugardaginn 10. september á íþróttasvæði Aftureldingar á Tungubökkum í Mosfellsbæ og hefst kl. 13:00. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Comments