Um ASÍ‎ > ‎

Saga ASÍ

Þann 20. maí 2009 setti Friðgeir Torfi Ásgeirsson svohljóðandi auglýsingu í Fréttablaðið: "Langar þig að spila Ástralskan Fótbolta? Hittumst við grillið í Hljómskálagarðinum í kvöld klukkan 20:00. Do you want to play Aussie Rules Football? Meet up by the BBQ in Hljómskála-park (at the far end of the Reykjavík Pond) tonight (Wed) at 20:00. Info 891 6679". Auglýsingin kostaði 5.800 krónur og enginn sá hana.
Þetta kvöld mættu 7 manns í Hljómskálagarðinn. Mættir voru: Friðgeir sjálfur, Eyjólfur Bjarni Sigurjónsson, Tómas Guðberg Gíslason, Úlfar Kristinn Gíslason, Sævar Þór Guðmundsson, Jón Eyþór Gottskálksson og Ojas Desai. Ojas, eða OJ eins og hann er kallaður, var túristi í Reykjavík og hafði séð auglýsingu sem Friðgeir hengdi upp á Bjarna Fel. OJ spilar Andspyrnu með New York Magpies.
Á næstu æfingu sem haldin var viku seinna bættust Kristján Jónsson, Aron Þór Þorleifsson, Haukur Þór Lúðvíksson og Júliús R. Jónsson við.
Æfingar voru haldnar í Hljómskálagarðinum þetta sumarið og gekk svo vel að finna mannskap að stefnan var sett á að senda landslið á Evrópubikarmótið strax þá um haustið. Þegar hér er komið hafði Andri Ómarsson hjá Mons ehf. samband við hópinn og spurði hvort hann mætti gera heimildarmynd um uppgang Ástralskrar knattspyrnu á Íslandi. Vel var í þetta tekið og hófust upptökur samstundis. Leikinn var æfingaleikur í Ullarnesbrekkunum í Mosfellsbæ og var hann tekinn upp af Andra/Mons. Hljómskálagarðurinn, eða öllu heldur túnið, fylltist æ meir af gæsaúrgangi og var orðinn hálf subbulegt síðsumars. Þetta varð til þess að farið var í það að leita að hentugara æfingasvæði. Þegar nær dró hausti fékk hópurinn aðstöðu á gervigrasinu við Kórinn - Vallakór 14 í Kópavogi og var það fyrir tilstillan Gregor Vadjics að Gunnar Guðmundsson íþróttafulltrúi Kópavogs útvegaði Andspyrnumönnum þá aðstöðu.
Þessi aðstaða reyndist hópnum mjög vel og náði hópurinn mjög vel saman. Mikil stemmning var í hópnum og 12 manns ákváðu að fara ásamt 2 manna tökuliði.
Þeir sem fóru út með landsliðinu á Evrópubikarmótið 2009 í Samobor Króatíu voru: Friðgeir Torfi Ásgeirsson (spilandi þjálfari og fyrirliði), Eyjólfur Bjarni Sigurjónsson, Haukur Þór Lúðvíksson, Leifur Bjarnason, Jakob Wayne Víkingur Robertson, Arnór Kárason, Jón Zophoniasson, Jón Hrói Finnsson, Páll Tómas Finnsson, Viðar Kristinsson, Greg Vajdic og Pavel Velikov. Úti í Króatíu slóst Conrad Petterson í hópinn, en hann er ástralskur og var á ferðalagi um Evrópu og hafði komið til Samobor í þeim tilgangi að bjóða krafta sína til einna af nýju landsliðunum.
Liðið var nefnt Hrafnarnir að tillögu Hauks Þórs Lúðvíkssonar og voru búningar pantaðir af Henson. Friðgeir hannaði búning liðsins.
Flogið var frá Íslandi 1. Október til Frankfurt og þaðan til Zagreb. Frá Zagreb var farið á leigubílum til Samobor. Íslenska liðið gisti á sama gistiheimili og Skotland, Holland, Frakkland og Írland og komst á mikil vinátta milli liðanna.
Fyrsti opinberi landsleikur Íslands var við Þýskaland og er óhætt að segja að Ísland kom mjög á óvart. Þýskaland var talið líklegt til að fara alla leið í úrslit fyrir leikinn en Íslendingar stóðu upp í hárinu á þeim og leikurinn endaði (opinberlega) 66 (10.6) 62 (9.8) fyrir Þýskalandi. Snemma leiks gegn Þjóðverjum meiddist besti og reynslumesti leikmaður Íslendinga Páll Tómas Finnsson eftir árekstur við fyrirliða Þýskalands, óhætt er að segja að úrslitin hefðu verið önnur ef ekki hefði komið til þess að Páll þurfti að fara út af. Næsti leikur var við Hollendinga og voru þeir varir um sig, Íslendingar léku án Páls og voru því með veikara lið en Hollendingar tóku enga áhættu sökum útreiðarinnar sem Þjóðverjar fengu, og ekki að ástæðu lausu. Undir lok leiksins leiddu Íslendingar og voru á góðri leið með að ná óvæntustu úrslitum mótsins. En reynsluleysi Íslenska liðsins varð því að falli og Hollendingar stóðu á sínu, þeir héldu út og náðu að skora mark undir lok leiksins og unnu því 78 (12.6) 74 (11.8). Íslendingar voru því sigurlausir í síðasta leiknum sínum gegn Ítalíu, sem eins og Íslendingar voru að taka þátt í fyrsta skipti. En Íslendingar reyndust Ítölum ofjarlar og hreinlega völtuðu yfir Ítali. Lokatölur leiksins urðu Ísland 14.11(95) Ítalía 10.6(66) og má til sanns vegar færa að ef Íslendingar hefðu haft meiri leikreynslu (4 leikmenn liðsins höfðu spilað leik fyrir mótið) og þar af leiðandi betri skotnýtingu þá hefðu Íslendingar nýtt þessi 11 behind betur og munurinn jafnvel orðið enn meiri.
Þessi sigur tryggði Íslendingum þátttökurétt í 3ja sætis útsláttakeppninni um "Skálarbikarinn" og stóð hugur manna til að fara ekki heim tómhentir. Frakkar voru næst á dagskrá og Páll Tómas kom sterkur inn í þeim leiknum. Frakkar fengu verri útreið og Ítalir og endaði leikurinn Frakkland 10.5(65) Ísland 16.9(105). Nýtingin var öllu betri í þessum leik og niðurstaðan eftir því.
Íslendingar voru nú komnir í úrslitin um Skálarbikarinn á móti EU Crusaders (samansafn landsliðsmanna landa sem ekki sendu lið á mótið) og var þetta jafn og erfiður leikur. Skondið atvik kom upp í hálfleik þegar mótsstjórinn, Philip Porbulev sem augljóslega hélt að leikurinn væri búinn, lýsti Íslendinga yfir sem sigurvegara. Þetta kom ekki að sök og Íslendingar héldu forskotinu til loka leiks og tóku bikarinn. Leikurinn endaði Ísland 10.11(71) EU Crusaders 8.4(52).
Að mótinu loknu var Pavel Velikov valinn í Evrópuliðið einn Íslendinga.
Ráðstefna um stofnun Evrópusambands Andspyrnu var haldin í Zagrep í sambandi við Evrópubikarmótið og mættu Friðgeir Torfi Ásgeirsson, Eyjólfur Bjarni Sigurjónsson og Páll Tómas Finnsson fyrir hönd Íslendinga. Ákveðið var á ráðstefnunni að halda stofnfund í Frankfurt Þýskalandi í Janúar.
Andspyrnulandsliðið fékk mikla og góða umfjöllun í fjölmiðlum bæði heima og erlendis eftir Evróubikarmótið (EU-Cup) og um haustið var æft bæði utanhúss í Fagralundi og innanhúss í Fífunni. Nýjir þátttakendur bættust við jafnt og þétt og ákveðið var að stefna á að keppa á Evrópumeistaramótinu í Danmörku og Svíþjóð 2010. Eftir áramót var einungis æft innandyra.
Grunnur var lagður að því að stofna deild að frumkvæði Friðgeirs og hafði hann forgöngu í því að útvega styrktaraðila. Aðalstyrktaraðilinn var Fosters umboðið (RJC) og var deildin nefnd eftir Fostersbjórnum fyrsta tímabilið. English Pub styrkti sambandið eins og fyrir Evrópubikarmótið og var bikarmót fyrir upphaf tímabilsins nefnt eftir þeim.
Ákveðið var að stofna 3 lið og voru þau nefnd Drekarnir, Gammarnir og Griðungar eftir tillögu Encho Plamenov Stoyanov um að liðin yrðu nefnd eftir landvættunum. Friðgeir sá um hönnun allra búninga en hverju liði var falið að hanna eigið liðsmerki. Friðgeir tók að sér að leiða lið Gammanna og Eyjólfur tók að sér að leiða lið Griðunga. Jón Zophoníusarson tók að sér að leiða lið Drekanna. Þeim sem áhuga höfðu á því að taka þátt í deildarkeppni var því næst skipt milli liða sem jafnast og ákveðið að eftir bikarmótið yrðu leikmenn fluttir til eins og þurfa þætti til að jafna liðin út sem mest.
Griðungar stóðu uppi sem bikarmeistarar eftir sigur á bæði Drekum og Gömmum. Gammarnir unnu einnig Drekana og ákveðið var að Valdimar Gunnarsson, sem upphaflega átti að spila með Gömmunum en var fluttur yfir í Griðunga þegar í ljós kom að þeim skorti mann, var fluttur yfir í Drekana til að styrkja það lið.
Íslandsmótið, Fostersdeildin, hófst 15. maí 2010 með sigri Gammanna yfir Drekunum. Spiluð var heil umferð fyrir Evrópumeistaramótið og sigruðu Gammar Griðunga og Griðungar Drekana.
Í aðdraganda Evrópumeistaramótsins kom í ljós að það fylltist hratt í plássin og tekin var ákvörðun um það að Ísland og Frakkland myndu keppa saman undir nafni Íslands sem ætlaði að leggja til mun fleiri menn en Frakkar. Frakkar náðu ekki að virkja nógu marga menn og Ísland ákvað að það væri jákvætt að hafa varamenn en einungis 18 manns gátu farið frá Íslandi.
Ísland var styrkt af Fulltingi, sem vann styrktarhappadrætti Andspyrnusambandsins.
Fyrsti leikur Íslands var 1. ágúst 2010 gegn Danmörku. Friðgeir skoraði fyrsta mark leiksins og kom Íslandi í 6-0 forystu. Það reyndist skammgóður vermir og Ísland tapaði leiknum 130-13 en Páll Tómas Finnsson skoraði hitt mark Íslendinga og Viðar Valdimarsson skoraði eitt framhjá. Lið Íslands var klappað af velli en frammistaðan þótti með eindæmum góð af liði sem hafði aldrei spilað á stórum velli áður.
Næsti leikur Íslands var 3. ágúst 2010 gegn Bretlandi. Ísland kom skemmtilega á óvart og stóð uppi í hárinu á sterku liði Breta. Leikurinn fór þó 86-36 fyrir Bretum en Íslendingar fögnuðu eins og þeir hefðu unnið leikinn og var hrósað í hástert af Bretum fyrir stórkostlegan árangur.
Í þriðja leik Íslands kom sennilega stærsta afrekið þegar þeir gerðu sér lítið fyrir og unnu Finnland 57-44. Hart hafði verið lagt að Friðgeiri að hann myndi raka á sér hausinn og hann hafði lofað því að landsliðið fengi að raka höfuðið á honum ef þeir ynnu Finnland með meira en 10 stigum.
Fjórði leikur landsliðsins var gegn Króötum en deildin í Króatíu var stofnuð 2006. Íþróttin hafði þó verið spiluð í Króatíu mörg ár þar á undan enda kom á daginn að Króatar reyndust Íslendingum ofjarlar þrátt fyrir skínandi frammistöðu þeirra. Reynsluleysi Íslendinga kom þeim í koll og lengra komust þeir ekki á viljanum og hörkunni einni saman.
Eftir mótið var Páll Tómas Finnsson valinn maður mótsins og í Evrópuliðið en Leifur Bjarnason var einnig valinn í Evrópuliðið.
Þegar heim var komið tók við seinni umferð Fostersdeildarinnar. Griðungar unnu Drekana og Gammar unnu einnig Drekana. Því voru góð ráð dýr. Griðungar áttu möguleika á að jafna Gammana að stigum og Gammar voru án nokkurra lykilmanna og því líklegt að tvö lið yrðu jöfn á toppnum. Ákveðið var að markahlutfall myndi ráða ferðinni. Lagt hafði verið til að innbyrðis leikir myndu skera úr um sigurvegarann en Griðungar stóðu harðir á sínu og markahlutfall varð ofan á.
Griðungar unnu síðan Gammana 119-99 í lokaleik Íslandsmótsins og voru í kjölfarið krýndir Íslandsmeistarar.
Comments